Sport

Sara stað­festir þátt­töku sína í eyði­merkur­mótinu á að­ventunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir er hér í hlutverki fyrirsætu að kynna nýja vörulínu sína og WIT Fitness.
Sara Sigmundsdóttir er hér í hlutverki fyrirsætu að kynna nýja vörulínu sína og WIT Fitness. Instagram/@sarasigmunds

Sara Sigmundsdóttir mun væntanlega keppa á sínu fyrsta CrossFit móti í desember eftir krossbandsslitið í mars. Hún staðfesti um helgina þátttöku sína á Dubai CrossFit Championship.

Sara tók risaskref í rétta átt um helgina þegar hún ákvað að setja sér formlega það markmið að snúa til baka áður en árið er liðið.

Instagram síða Dubaí mótsins tilkynnti um staðfestingu Suðurnesjamærinnar og sagði: Velkomin til baka Sara. Sara staðfesti það síðan á sinni síðu skömmu síðar.

„Í dag er ég bæði svo þakklát fyrir og ánægð með að geta tilkynnt það að ég hef þáð boðið,“ skrifaði Sara á síðu sína en aðeins bestu CrossFit konum og körlum var boðin þátttaka á mótinu í ár.

„Ég tek það þó fram að ég er að æfa undir vökulum augum þjálfara míns og sjúkraþjálfara og ég mun ekki taka neina áhættu,“ skrifaði Sara.

„Ég krosslegg bara fingurna að ég verði tilbúin. Það eru bara tvær vikur eftir af endurhæfingunni og svo byrjum við vinnuna,“ skrifaði Sara.

Dubai CrossFit Championship fer fram 16. til 18. desember næstkomandi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Sara missti af öllu 2021 tímabilinu vegna meiðsla en hún endar samt árið inn á keppnisgólfinu sem er táknrænt fyrir hversu staðráðin hún var að koma sterkari til baka.

Sara sleit krossband í mars og fór í aðgerð 12. apríl síðastliðinn. Það verða því aðeins átta mánuðir liðnir frá aðgerð þegar Sara keppir á sínu fyrsta móti eftir meiðslin.

Nákvæmlega munu líða 248 dagar frá því að hún vaknaði úr svæfingunni þar til að hún stígur fram og keppir í fyrstu grein mótsins. Það er ef allt gengur upp hjá henni á æfingunum á næstu tveimur og hálfum mánuði.

Sara hefur líka titil að verja í Dúbaí því hún vann mótið þegar það fór fram síðast árið 2019.

Dubai CrossFit Championship var aflýst í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins.


Tengdar fréttir

Þrjár vikur í græna ljósið hjá Söru

Íslenska CrossFit konan Sara Sigmundsdóttir er farin að telja niður í þá stund sem hún má fara að taka almennilega á því í lyftingarsalnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×