Fyrsti leikur kvennalandsliðsins í undankeppni HM 2023 er á móti Evrópumeisturum Hollands á Laugardalsvellinum á þriðjudaginn kemur.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir voru báðar ánægðar með breytingu á undirbúningi íslenska liðsins fyrir þennan mikilvæga leik.
Í stað þess að vera á hóteli í Reykjavík og æfa í höfuðborginni þá kom allt liðið saman í Hveragerði og eyðir þar nokkrum dögum saman. Hollendingar eru að spila sinn fyrsta leik í undankeppninni annað kvöld áður en þeir koma til Íslands.
„Það er gott að fá að breyta um umhverfi og fá að gera eitthvað skemmtilegt saman,“ sagði Gunnhildur Yrsa á fjarfundi með blaðamönnum en þær ræddi hún þá breytingu að vera í Hveragerði en ekki í Reykjavík.
„Við erum samt mættar hingað til að vera hundrað prósent með hverri annarri og einbeita okkur að þessum leik,“ sagði Gunnhildur.
Liðið æfir líka í Hveragerði og Gunnhildur var ánægð með Grýluvöllinn.
„Það er gaman að breyta til. Við fengum fleiri daga í undirbúning fyrir leikinn og því var um að gera að nýta tímann og þjappa hópnum betur saman,“ sagði Gunnhildi og það er hópefli fram undan í Hveragerði.
Glódís Perla sagði frá því að leikmenn liðsins ætli að keppa á golfmóti í dag til að finna út hver sé besti kylfingurinn í liðinu. „Það verður alla vega ekki ég,“ sagði Glódís létt.
Liðið mun síðan fara saman í Paintball á morgun.
„Þið þurfið engar áhyggjur að hafa af okkur. Við erum alveg góðar í Hveragerði,“ sagði Glódís Perla.
Glódís Perla var síðan tilbúin að veðja á það að Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Íslandsmeistara Vals, væri líklegust til að vinna golfmótið í dag.