Handbolti

Dramatískt jafntefli í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elvar Örn Jónsson skoraði fimm mörk fyrir Melsungen í dag.
Elvar Örn Jónsson skoraði fimm mörk fyrir Melsungen í dag. EPA-EFE/Petr Josek

Þýska úrvalsdeildin í handbolta hófst í dag með fimm leikjum og það voru Íslendingar í eldlínunni í þremur þeirra. Bjarki Már Elísson og félagar hans í Lemgo gerðu 26-26 jafntefli gegn Íslendingaliði Melsungen. Elvar Örn Jónsson var markahæstur Íslendinga með fimm mörk.

Nokkuð jafnræði var með liðunum framan af fyrri hálfleik en Melsungen virtist alltaf vera einu skrefi á undan. Þeir náðu mest fjögurra marka forskoti áður en Bjarki Már og félagar minnkuðu í eitt rétt fyrir hálfleik og staðan þegar að gengið var til búningsherbergja var því 12-11, Melsungen í vil.

Seinni hálfleikur var sipaður þeim fyrri og mikið jafnræði var með liðunum. Liðin skiptust á að skora, en Melsungen var þó alltaf skrefi á undan. Lokamínúturnar buðu upp á mikla spennu og Bjarki Már og félagar jöfnuðu í 26-26 þegar tæp mínúta var til leiksloka.

Eins og áður segir var Elvar Örn Jónsson markahæstur Íslendinga með fimm mörk og liðsfélagi hans, Arnar Freyr Arnarsson skoraði þrjú. Alexander Petersson skoraði eitt mark fyrir gestina og Bjarki Már gerði þrjú mörk fyrir heimamenn í Lemgo.

Janus Daði Smárason og félagar hans í Göppingen heimsóttu Hamburg í sínum fyrsta leik á tímabilinu. Heimamenn í Hamburg höfðu frumkvæði framan af og náðu mest þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik og fóru með 16-15 forystu inn í búningsklefa.

Liðin skiptust á að hafa forystuna í seinni hálfleik og þegar að stutt var til leiksloka var allt jafnt, 26-26. Janus og félagar voru sterkari á lokasprettinum og skoruðu tvö mörk gegn einu marki Hamburg og unnu þar með góðan sigur, 28-27.

Þá töpuðu Daníel Þór Ingason og félagar hans í HBW Balingen-Weilsetten 33-24 þegar að liðið heimsótti Kiel. Heimamenn í Kiel náðu mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik, en þegar að flautað var til hálfleiks var staðan 13-11.

Liðin skiptust á að skora í upphafi seinni hálfleiks, en þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka tóku leikmenn Kiel öll völd og stungu af. Lokatölur  33-24, en Daníel Ingi skoraði tvö mörk í liði HBW Balingen-Weilsetten.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×