Samkvæmt heimildum íþróttadeildar þá eru leikmennirnir tveir sem eru ekki lengur í hópnum þeir Kolbeinn Sigþórsson og Rúnar Már Sigurjónsson.
Gísli Gíslason, varaformaður KSÍ, staðfesti í samtali við Vísi fyrr í dag að tvær breytingar yrðu gerðar á hópnum og að annar leikmaðurinn hafi sjálfur ákveðið að draga sig úr hópnum. Hinn hafi verið tekinn úr hópnum í kjölfar krísufundar hjá Knattspyrnusambandinu sem stóð stærstan hluta helgarinnar.
Ekki er vitað hvor þeirra dró sig sjálfviljugur úr hópnum. Von sé á skýringum frá KSÍ síðar.

Að sögn Gísla er Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari á leið til landsins og muni hann greina nánar frá breytingunum.
Ekki náðist í Arnar Þór við vinnslu fréttarinnar.
Styr hefur staðið um KSÍ í aðdraganda landsleikjanna en Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður sambandsins fyrr í dag í kjölfar frétta af meintri hylmingu sambandsins yfir kynferðisbrot landsliðsmanna.