Gylfi er í farbanni eftir að hann var handtekinn á Englandi í sumar, grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða stúlku.
Á blaðamannafundi KSÍ í gær, þar sem hópur karlalandsliðsins fyrir næstu leiki þess í undankeppni HM 2022 var tilkynntur, sagðist landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson ekkert hafa rætt við Gylfa eftir handtökuna.
Aðilar frá KSÍ hafa hins vegar verið í sambandi við Gylfa eins og Arnar Þór greindi frá í viðtali við Henry Birgi Gunnarsson.
„Við höfum sem knattspyrnusamband haft samband við Gylfa og hans fólk, ég persónulega ekki,“ sagði Arnar Þór.
„Hann er ekki leikhæfur fyrir þessa leiki og það er það eina sem ég get sagt akkúrat núna. Hvað framtíðin ber í skauti sér, ég get ekki spáð fyrir um það.“
Gylfi hefur ekki leikið fyrir landsliðið síðan Arnar Þór tók við því lok síðasta árs. Hann á að baki 78 landsleiki og hefur skorað í þeim 25 mörk. Aðeins Kolbeinn Sigþórsson og Eiður Smári Guðjohnsen hafa skorað fleiri landsliðsmörk (26).
Framundan eru þrír heimaleikir hjá íslenska landsliðinu í byrjun næsta mánaðar. Ísland mætir Rúmeníu 2. september, Norður-Makedóníu 5. september og Þýskalandi 8. september.
Íslendingar eru í fimmta og næstneðsta sæti J-riðils undankeppninnar með þrjú stig eftir þrjá leiki.