Sport

Frábær lokakafli tryggði Anníe Mist bronsverðlaun á heimsleikunum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Annie Mist Þórisdóttir.
Annie Mist Þórisdóttir. mynd/instagram/anniemist

Anníe Mist Þórisdóttir kórónaði frábæra frammistöðu sína á heimsleikunum í CrossFit með því að tryggja sér bronsverðlaun í lokagrein helgarinnar.

Anníe Mist, sem eignaðist sitt fyrsta barn fyrir tæpu ári síðan, varð betri með hverjum keppnisdeginum en alls voru þeir fjórir. Anníe var í 12.sæti eftir fyrsta keppnisdag og var í harðri baráttu við hina norsku Kristin Holte um 3.sætið alveg fram á síðustu grein.

Anníe varð þriðja í síðustu greininni sem lauk nú rétt í þessu á meðan Holte varð tíunda. Tekur Anníe Mist því bronsverðlaunin en hin ástralska Tia-Clair Loomey vann leikana með talsverðum yfirburðum.

Magnaður lokadagur hjá Anníe þar sem þrjár greinar fóru fram en hún hafnaði í fjórða sæti í fyrstu grein dagsins, vann aðra greinina með yfirburðum og tók sem fyrr segir þriðja sætið í síðustu grein mótsins. Svo sannarlega vel að bronsverðlaunum komin.

Katrín Tanja Davíðsdóttir náði að lyfta sér upp í 10.sæti í síðustu greininni og Þuríður Erla Helgadóttir hafnaði í 13.sæti.

Í karlaflokki hafnaði Björgvin Karl Guðmundsson í fjórða sæti, nítján stigum á eftir hinum kanadíska Brent Fikowski sem hirti bronsið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×