Kvikmyndatökumaðurinn Elia Saikaly, sem vann að gerð heimildarmyndar um leiðangur Johns Snorra og samferðamanna hans, var með í för Sajids, þegar þeir fundu lík ferðalanganna á mánudaginn. Hann segir enn ekki sannað að þeir hafi náð toppi K2.
Í nýrri færslu sem hann birti á Instagram deilir hann myndinni sem náðist úr vél John Snorra og lýsir leitaraðgerðum á fjallinu.
Myndin er rammi úr myndbandi sem vélin tók en því miður virðist allt annað myndefni vélarinnar ónýtt.
„Þetta er eina myndefnið sem við höfum einmitt núna. Einn stakur rammi úr myndbandi sem virðist skemmt en þarf frekari greiningu,“ skrifar Elia í færslunni.
Hann segir litinn á reipinu sem sést á myndinni vera mikilvægt smáatriði sem geti sagt mikið um ferð þeirra. Því var nefnilega komið fyrir af nepölsku göngumönnunum sem náðu toppi K2 að vetrarlagi fyrstir manna, nokkru áður en John Snorri og samferðamenn hans komust langt upp í fjallið.
„En hvar er þetta? Hversu nálægt toppinum? Getur GoPro 360 vélin gefið okkur upplýsingar um staðsetningarhnit göngumannanna? Hvað fleira getur myndin sagt okkur?“ spyr Elia sig.
Ekki sannað að þeir hafi náð toppinum
Hann segir það skrýtið að ekki sé hægt að spila myndband vélarinnar. Enn sé ekki sannað að þeir hafi náð toppi K2 áður en þeir létust:
„Okkar vinna hér heldur áfram. Við drögum ekki neinar ályktanir strax á meðan við reynum að púsla myndinni af ferð þeirra saman og leita vísbendinga um að þeir hafi komist á topp K2 að vetrarlagi.“
John Snorri í mestri hæð
Þremenningarnir fundust á fjallinu á mánudag, sem fyrr segir. Elia lýsir því hvernig einstakur viljastyrkur Sajids sem var staðráðinn í að finna lík föður síns, hafi keyrt leitarferð þeirra áfram við virkilega hættulegar aðstæður.
„Brekkan sem þeir fundust í var í um 75 til 80 gráðu halla. Eitt rangt skref og við hefðum dáið. Sajid eyddi meira en fimmtán mínútum í að leita á klæðnaði Johns eftir mikilvægum búnaði þeirra. Á einum tímapunkti tók hann hníf sinn út og byrjaði að skera á klæðnað hans,“ skrifa Elia.
„Þið getið ekki ímyndað ykkur hversu erfitt það er að leita á og færa lík manneskju sem hefur látist í meira en 8000 metra hæð. Ég tók það upp þegar fjaðrir flugu niður af fjallshlíðinni þegar hann náði GoPro vélinni loks úr klæðnaði hans.“
Elia segir að mennirnir hafi greinilega verið á niðurleið þegar þeir fundust. John Snorri var þá aftastur, í mestri hæð, en hann fannst festur í öryggislínur sem Sjerpar hafa komið fyrir á leiðinni á toppinn. Nokkuð skammt frá honum var Ali Sadpara og Juan Pablo fannst síðar mun neðar en þeir, nær búðum fjögur. Talið er að þeir hafi króknað úr kulda eftir að stormur skall á í fjallinu.