Handbolti

Danir settu markamet gegn lærisveinum Dags

Valur Páll Eiríksson skrifar
Dagur Sigurðsson hafði fá svör á hliðarlínunni eftir afleita byrjun Japans í dag.
Dagur Sigurðsson hafði fá svör á hliðarlínunni eftir afleita byrjun Japans í dag. Dean Mouhtaropoulos/Getty Images

Heimamenn í Japan, undir stjórn Dags Sigurðssonar, biðu afhroð í fyrsta leik sínum í handboltakeppni karla á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag. Danmörk vann 47-30 sigur á þeim japönsku.

Dagur Sigurðsson mætti með sína menn til leiks á Ólympíuleikana í dag, en á síðustu leikum árið 2016 í Ríó de Janeiró, hlaut hann brons sem þjálfari Þjóðverja. Dagur var sérstaklega ráðinn af japanska handknattleikssambandinu árið 2017 til að byggja upp samkeppnishæft lið fyrir Ólympíuleika þeirra japönsku á heimavelli.

Fyrsta verkefnið var ærið. Ríkjandi heims- og Ólympíumeistarar Dana biðu Japana.

Einhverjar taugar virðast hafa verið á meðal japönsku leikmannana þar sem þeir mættu varla til leiks. Danir nýttu sér það til fulls og sá Dagur ástæðu til að taka leikhlé eftir aðeins fimm mínútna leik þegar Danir höfðu skorað fyrstu fimm mörk leiksins.

Ekki skánaði það fyrir þá japönsku eftir það. Danir náðu mest 13 marka forskoti í fyrri hálfleiknum, 19-6, en munurinn í hléi var ellefu mörk þar sem Danir skoruðu heil 25 mörk í fyrri hálfleik, gegn 14 mörkum Japans.

Japan skoraði tvö fyrstu mörk síðari hálfleiks til að minnka muninn í níu mörk en komust ekki nær en það. Varnarleikur þeirra japönsku batnaði ekki sem skildi eftir hléið, þó sóknarleikurinn væri beittari, og lauk leiknum með ótrúlegum lokatölum, 47-30 fyrir Dani.

Aldrei hafa eins mörg mörk verið skoruð af einu liði í leik á Ólympíuleikunum. Fyrra meti deildu Frakkar sem unnu Breta 44-15 í Lundúnum 2012 og Svíar sem unnu Ástrali 44-23 í Sydney 2000.

Jacob Holm var markahæstur Dana með níu mörk en línumaðurinn Magnus Saugstrup skoraði átta. Hjá Japan var hægri hornamaðurinn Hiroki Motoki markahæstur með átta mörk. Allir leikmenn Dana, að undanskildum markverðinum Niklas Landin og miðjumanninum Morten Olsen, komust á blað.

Danmörk er þá á toppi B-riðils eftir eina umferð. Egyptaland kemur þar á eftir í kjölfar 37-31 sigurs á Portúgal og Svíþjóð vann þá nauman eins marks sigur á strákum Arons Kristjánssonar í Barein.

Danir mæta Egyptum í næsta leik á mánudag en Japan mætir Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×