„Um leið og ég kaupi þetta fyrirtæki fæ ég símhringingu og mér er boðið starf hjá Senu. Á þessum tíma er Sena með tónlistarútgáfu, viðburði og margt fleira,“ segir Esther en hún hóf störf hjá Senu árið 2016.
Esther er fyrrverandi kynningarstjóri Senu og Sena Live. Hún rekur einnig eigið fyrirtæki sem sinnir allskonar verkefnum innan menningargeirans eins og til dæmis PR- og kynningarmál, almenna ráðgjöf, styrkjaumsóknir og tónleikahald svo eitthvað sé nefnt.
„En þarna er ég á sama tíma að vinna hjá South by SouthWest og er bara í viðburðahaldinu og ekki í kynningarmálunum,“ segir Esther. South by SouthWest er tónleikahátíð sem fram fer árlega í Austin, höfuðborg Texas, í Bandaríkjunum.
Esther hefur komið að tónleikahaldi og markaðssetningu fyrir ýmsa heimsþekkta listamenn, þar á meðal Justin Bieber og Red Hot Chili Peppers. Hún segir frá því í nýjasta þætti hlaðvarpsins Bransakjaftæði hvað það sé áhugavert að sjá hvað listamenn eru misástríðufullir.
„Maður finnur það oft með listamenn sem maður er að vinna með hverjir eru ástríðufullir og „hands on“ listamenn. Red Hot Chili Peppers eru það og það var mjög góður andi,“ segir Esther en hún sá um markaðssetningu tónleika þeirra hér á landi á samfélagsmiðlum sveitarinnar.
„Listamenn geta spáð mikið í öllu sem við kemur því þú getur ekki bara verið að semja tónlist. Ef þú ætlar að lifa á því geturðu ekki bara samið og spilað tónlist. Þú verður að huga að markaðsmálum og kynningarmálum og bissnessinum í kring um þetta. Það eru þeir listamenn sem hugsa hvað mest um þetta sem heildarmynd sem gengur hvað best.“
Þáttinn má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

Bransakjaftæði er hlaðvarpshluti Tónatals, sem miðar að því að efla þekkingu þeirra sem starfa við tónlist og stuðningsumhverfi þeirra. Bransakjaftæði er unnið í samvinnu við Útvarp 101 og Bergþór Másson er þáttarstjórnandi annarrar seríu. Tónatal er samstarfsverkefni ÚTÓN, Tónlistarborgarinnar Reykjavík, STEF, SFH og Íslandsstofu. Þættirnir birtast vikulega á Spotify og Vísi en jafnframt verða þeir spilaðir á Útvarp 101 á miðvikudögum klukkan 16.