Thomas Massamba hefur skrifað undir samning við Tindastól og mun leika með liðinu í Domino's deild karla í körfubolta á næsta tímabili. Þetta kemur fram á Feykir.is.
Massamba er 35 ára bakvörður og hefur leikið með sænska landsliðinu. Hann hefur farið víða á ferlinum og unnið titla í Svíþjóð, Búlgaríu, Kýpur, Kósóvó og Tékklandi. Síðast lék Massamba í Belgíu.
Stólarnir eru greinilega stórhuga en auk Massambas hafa þeir samið við Sigurð Gunnar Þorsteinsson, Sigtrygg Arnar Björnsson, Bandaríkjamanninn Javon Bess og Taiwo Badmus sem er með breskt-írskt vegabréf.
Sigurður kom frá Hetti en Sigtryggur og Badmus frá Básquet Coruna á Spáni. Sigtryggur lék með Tindastóli tímabilið 2017-18 og varð þá bikarmeistari með liðinu.
Á síðasta tímabili endaði Tindastóll í 8. sæti Domino's deildarinnar og tapaði fyrir Keflavík, 3-0, í 1. umferð úrslitakeppninnar.

Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.