„Við treystum á þessa útbreiddu bólusetningu hér innanlands og að fólk gæti að sér, en kannski vantar eitthvað upp á það,“ segir Þórólfur í samtali við Vísi.
Öllum samkomutakmörkunum var aflétt innanlands 26. júní og síðan hefur verið glatt á hjalla um allt land, einkum í skemmtanalífinu.
„Mér sýnist að fólk hafi sleppt fram af sér beislinu dálítið. Það er auðvitað skiljanlegt og viðbúið en þá þurfum að sjá hvað verður. Vonandi þurfum við ekki að fara í aðgerðir aftur,“ segir Þórólfur.
„Lykillinn að góðu framhaldi er að fólk sem er með öndunarfæraeinkenni, jafnvel þótt það sé bólusett, fari í sýnatöku,“ segir Þórólfur. Því fylgi aðeins nokkrar klukkustundir í sóttkví á meðan unnið er úr niðurstöðunni.
Til skoðunar að gefa Janssen-fólki aukasprautu
Enn eru ekki öll kurl komin til grafar um áhrif bólusetningarinnar á einstaklinga eða þjóðfélagið í heild, en Þórólfur segir að á þessari stundu sé hægt að reikna með 90% vörn fyrir alvarlegum veikindum en um 70-80% vörn gegn því að smitast af veirunni.
Rætt hefur verið um að ein sprauta af Janssen kunni veita vörn skemur en önnur bóluefni. Því geti þurft að bæta við sprautu af til dæmis Pfizer hjá þeim hópi sem aðeins hefur fengið Janssen.
„Það er ekkert farið að skýrast í því almennilega. Janssen virðist virka mjög vel gegn öllum þessum afbrigðum sem eru í gangi, en spurningin er hve lengi þessi vernd endist eftir eina sprautu. Menn eru bara að skoða það hvort það þurfi að bjóða aukasprautu.“
Nokkur ríki hafa þegar ráðist í að gefa þriðju bólusetningu en Þórólfur telur að þess sé í fljótu bragði ekki þörf.
„Mér finnst ekki vera nein rök á þessari stundu sem mæla með því. Mótefnasvörunin er bara mjög góð og breið eftir tvær sprautur. Það getur síðan vel verið að í haust komi niðurstöður um að það borgi sig,“ segir sóttvarnalæknir.