Síðustu ár hafa skráningar hunda nánast staðið í stað þrátt fyrir sýnilega aukningu hundahalds á höfuðborgarsvæðinu og verið árlega um og yfir tvö þúsund í Reykjavík og Hafnarfirði, Kópavogi og Garðabæ.
Dýraþjónusta Reykjavíkur tók við málefnum sem tengjast dýrum í borginni af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur í maí á þessu ári. Þjónustan er staðsett í Fjölskyldu-og húsdýragarðinum en á heimasíðu borgarinnar kemur fram að tilgangur hennar sé að tryggja nauðsynlega þjónustu, fræðslu og yfirsýn yfir málaflokkinn.
Þorkell Heiðarsson deildarstjóri þar segir hundum hafa fjölgað mikið í borginni en líklega sé aðeins helmingur þeirra skráður.
„Hundum hefur fjölgað mikið undanfarið sérstaklega núna síðasta árið í Covid. Við höfum heyrt að þeir hafi hreinlega verið uppseldir. Við höfum hins vegar ekki séð það í skráningartölum. Það má ætla að um helmingur hunda sé óskráður,“ segir hann.

Flest sveitarfélög hafa lækkað eftirlitsgjald með hundum verulega til að fjölga skráðum hundum en gjaldið stendur undir ábyrgðartryggingu gegn tjóni sem hundar kunna að valda þriðja aðila og annarri þjónustu.
Þorkell segir að á döfinni sé einnigað fjölga hundagerðum í borginni og auka þjónustu almennt við dýraeigendur. Dýraþjónustan taki einnig við ábendingum frá borgarbúum vegna dýrahalds.
„Ef fólki grunar að dýr séu vanrækt á að tilkynna það til Matvælastofnunar sem við erum í samstarfi við. Við höfum hins vegar fengið þó nokkar ábendingar um að hundar séu lengi einir og gelti mikið. Það skýrist mögulega af því að fólk sem gat unnið heima í Covid hefur nú snúið aftur til vinnu og þá eru hundarnir lengur einir en áður og stundum of lengi,“ segir Þorkell.

„Dýrahald er hluti af borgarlífinu“
Þorkell segir viðhorf Reykjavíkurborgar til dýrahalds hafa breyst verulega.
„Áður var oft litið á gæludýrahald sem heilbrigðisvandamál. Það er ekki lengur þannig. Auðvitað getur komið upp vandi í tengslum dýrahald í þéttbýli og við tökum við þannig ábendingum. Í langflestum tilvikum er gæludýrahald hins vegar afar jákvætt fyrir borgarana. Þetta gefur fólki aukna lífsfyllingu og hvetur til hreyfingar. Ég held að dýrahald í borginni haldi áfram að aukast. Við þurfum að einbeita okkur að allir geti lifað í sátt og samlyndi þ.e. dýraeigendur og þeir sem eiga ekki dýr. Dýrahald er hluti af borgarlífinu og það þurfa allir að sýna þar tillitssemi,“ segir hann að lokum.