Kristján Jón Eysteinsson, kirkjuhaldari í Háteigskirkju, segir að um mikið tjón sé að ræða. „Þetta er heilmikið. Það hefur líklega farið element [varmaskiptir] í blásarakerfinu, við erum með lofthitun. Við vitum ekki nákvæmlega hvort að það hafi verið rör eða elementið.“

Hann segir að lekinn hafi uppgötvast í morgun og mögulega hafi byrjað að leka í gærkvöldi eða í nótt. „Þetta er í kjallaranum svo vatnið nær ekki upp í kirkjuna, kirkjuskipið. Þó er allt sveitt þarna uppi, gufa og hiti. Allir gluggar sveittir. Þetta er verulegt tjón.“
Kristján sagði í samtali við fréttastofu um klukkan 12:30 að slökkvilið væri þá nýfarið.
„Það hefur vatn komist í fjölda kassa og annað í kjallaranum, meðal annars í nótur Léttsveitar Reykjavíkur og Karlakórs Reykjavíkur sem eru hér með heimilisfesti,“ segir Kristján Jón.




