Íslenski boltinn

Vill sjá Tindastól sækja sér liðsstyrk í glugganum til að nýta meðbyrinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tindastóll hefur tapað fimm leikjum í röð í Pepsi Max-deild kvenna.
Tindastóll hefur tapað fimm leikjum í röð í Pepsi Max-deild kvenna. vísir/Sigurbjörn Andri Óskarsson

Tindastóll þarf að fá liðsstyrk þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður til að eiga betri möguleika á að halda sæti sínu í Pepsi Max-deild kvenna. Þetta segir Árni Freyr Guðnason, einn sérfræðinga Pepsi Max markanna.

Tindastóll tapaði fyrir Keflavík, 1-0, í nýliðaslag suður með sjó á laugardaginn. Þetta var fimmta tap Stólanna í röð en þeir eru á botni deildarinnar með fjögur stig.

Murielle Tiernan, aðalmarkaskorari Tindastóls, hefur glímt við meiðsli og Stólararnir mega illa við að vera án hennar.

„Murielle er algjör lykilmaður hjá Tindastóli. Þær þurfa á henni að halda. Hún kom inn á í hálfleik, búin að vera meidd. Án hennar er sóknarleikurinn veikburða. Það er bara þannig,“ sagði Árni.

Hann vill að Stólarnir sæki sér liðsstyrk þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður 29. júní.

„Ég væri til í að sjá, því það er gríðarlegur meðbyr með Tindastóli og mikil stemmning í kringum þetta, þá sækja einn til tvo leikmenn í glugganum. Þær þurfa bara smá í viðbót,“ sagði Árni.

Næsti leikur Tindastóls er gegn Selfossi á heimavelli á miðvikudaginn.


Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×