Stríður straumur flóttamanna hefur verið yfir landamærin frá Mexíkó undanfarin misseri og segir Greg Abbott, ríkisstjóri Texas og repúblikani, það skyldu alríkisstjórnarinnar að tryggja landamærin. Hann segir þó að Texasríki muni ekki sitja hjá á meðan flóttamannavandinn eykst við landamærin.
Með fyrstu verkefna Joe Bidens, Bandaríkjaforseta, í embætti var að taka úr gildi stefnu Donalds Trumps, fyrrverandi forseta, um að reisa múr við landamærin að Mexíkó.
Óljóst er hvort Abbott hafi völd til þess að boða þessa uppbyggingu við landamærin.
„Þetta mun hjálpa okkur öllum í vinnunni við að komast að lausn þess vanda sem hlýst af flæði ólöglegra innflytjenda og ólöglegra vara yfir landamærin,“ sagði ríkisstjórinn á blaðamannafundi í gær.
Breska ríkisútvarpið segir í frétt sinni að líklega verði ákvörðun hans stefnt fyrir dómstóla. Óskráðir farendur komið að landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna hafa ekki verið fleiri í tuttugu ár en í þessum síðasta mánuði.
Landamæraeftirlit Bandaríkjanna handtók meira en 180 þúsund óskráða farendur í maí, sem flestir voru einir á ferð og fullorðnir. Fleiri hafa þeir ekki verið frá því í apríl árið 2000. Flestir þeirra eru á flótta vegna fátæktar og átaka í Miðameríkuríkjum eins og Gvatemala.