Handbolti

Björg­vin um sparkið í höfuð Péturs: Allir hoppa að­eins lengra og aldrei vilja­verk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson ræddi atvikið umdeilda sem sést hér á skjámyndinni hér fyrir ofan.
Björgvin Páll Gústavsson ræddi atvikið umdeilda sem sést hér á skjámyndinni hér fyrir ofan. S2 Sport

Björgvin Páll Gústavsson var flottur í marki Hauka í gærkvöldi þegar liðið fór langt með að tryggja sér sæti í úrslitaeinvíginu í Olís deild karla í handbolta með fimm marka útisigri á Stjörnunni. Björgvin var líka í aðalhlutverki í umdeildasta atviki leiksins.

Björgvin Páll fékk að koma á háborð Seinni bylgjunnar eftir leikinn sem besti maður leiksins en Haukarnir hafa nú unnið fjórtán leiki í röð í deild og úrslitakeppni.

Björgvin Páll fór yfir leikinn með Henry Birgi Gunnarssyni og sérfræðingum Seinni bylgjunnar. Markvörðurinn snjalli ræddi meðal annars stöðugleika Hauka sem sýna fá veikleikamerki.

„Þegar þú ert búinn að vinna svona marka leiki í röð þá ertu kominn með fullt sjálfstraust. Ofan á það þá erum við að æfa eins og rottur. Við erum að spila með tvö lið á æfingum og stundum með þrjú lið ef U-liðið okkar kemur líka. Við erum alltaf á tánum og erum búnir að vera á tánum í þessum pásum líka,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson.

S2 Sport

Björgvin Páll er búinn að vera að verja mjög vel í marki Hauka síðustu vikur.

„Við byrjum ekki vel og ég byrja ekki vel en ég kem mér inn í leikinn. Það er vörninni að þakka. Þessi bolti kemur mér inn í leikinn, frábær vörn hjá Heimi og þá koma hinir boltarnir í framhaldinu,“ sagði Björgvin og hrósaði vörninni fyrir að þrengja fyrsta skotið sem hann varði. „Ég er í formi og ég veit að ég get treyst vörninni og þú getur treyst gæjanum við hliðina á þér. Þá er maður alltaf með sjálfstraust og klár í hvað sem er,“ sagði Björgvin Páll.

Björgvin Páll ræddi meðal annars atvikið umdeilda þegar margir vildu að hann fengi rautt spjald en hann slapp með tveggja mínútna brottvísun.

„Það er svo mikill vilji og það er svo mikill kraftur. Eins og þegar við (Pétur) lendum saman í sex metra færinu eða Dagur Gauti í hraðaupphlaupinu. Það eru allir að hoppa aðeins lengra, gera aðeins meira og stíga aðeins nær. Það er ástríðan sem er í gangi því þú færð allt í einu fulla höll sem hefur ekki sést í tvö ár. Þá kemur mikil orka og mikil læti. Menn eiga kannski í erfiðleikum með að beisla hana,“ sagði Björgvin Páll.

S2 Sport

Henry Birgir spurði Björgvin beint út í atvikið þegar hann hoppar á Stjörnumanninn Pétur Árna Hauksson.

„Ég get lofað því að þetta er ekki viljaverk. Uppáhaldsskotið hans er að setja hann þarna uppi og hann veit það sjálfur. Þess vegna fer fóturinn svona hátt upp. Málið er það að þegar maður er í svona leik og ég sjálfur er gíraður þá hoppar maður aðeins meira á móti,“ sagði Björgvin Páll og nefndi líka atvikið með Dag Gautason í seinni hálfleiknum.

„Ef ég geri sömu hreyfingu þar þá fer ég líka í andlitinu á honum en ég þar náði ég að bremsa mig af svona andlega. Það eru bara lætin og stemmningin sem gera það að verkum að maður er aðeins agressífari. Kannski fer hálfu skrefi lengra en það er aldrei til í dæminu að þetta sé viljaverk.

Það má sjá allt viðtalið og atvikið hér fyrir neðan.

Klippa: Seinni bylgjan: Björgvin Páll á háborðinu eftir sigur á Stjörnunni



Fleiri fréttir

Sjá meira


×