Fram kemur í yfirlýsingu Geðhjálpar sem send var fjölmiðlum í morgun að í nóvember árið 2020 hafi fimm þáverandi og fyrrverandi starfsmenn öryggis- og réttargeðdeilda Landspítala komið á fund Geðhjálpar. Þeir hafi sagt frá alvarlegum atvikum í starfsemi deildanna gagnvart notendum þjónustunnar sem, að mati lögfræðings Geðhjálpar, kunni að varða hegningarlög. Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjálpar telur að fá ætti óháðan aðila á borð við umboðsmann alþingis til að sinna eftirliti í málaflokknum í stað landlæknis.
„Og þá erum við að tala um á stöðum þar sem fólk er vistað í langan tíma gegn sínum vilja. Viðbrögðin við ábendingum sem komu frá okkur í greinargerð eftir að starfsmenn leituðu til okkar í nóvember, gefa tilefni til þess að efast um getu embættisins til að sinna þessu eftirlitshlutverki,“ segir Grímur.
Vilja „alvöru rannsókn“
Geðhjálp túlki viðbrögð embættisins á þann veg að ekki sé tekið mark á ábendingunum því þær séu settar fram undir nafnleynd.
„Og að það sé einhvers konar afsökun fyrir því að taka ekki málið föstum tökum, að það sé eitthvað flókið að taka á málum? Auðvitað á að fara í alvöru rannsókn á því þegar svona alvarlegar ábendingar koma fram.“
Kjartan Hreinn Njálsson aðstoðarmaður landlæknis segir í svari við fyrirspurn fréttastofu að embættið sé ekki reiðubúið að bregðast við bréfi Geðhjálpar að svo stöddu.
Frumvarp heilbrigðisráðherra um réttindi sjúklinga og beitingu nauðungar er á dagskrá á fundi velferðarnefndar nú í morgun. Lagt er til í frumvarpinu að skýrt verði kveðið á um að beiting nauðungar gagnvart sjúklingum á heilbrigðisstofnunum verði bönnuð og að bannið nái einnig til fjarvöktunar. Gert er ráð fyrir að yfirlækni eða vakthafandi sérfræðilækni verði heimilt að víkja frá slíku banni í sérstökum einstaklingsbundnum tilfellum. Einnig er gert ráð fyrir að heimilt verði að beita nauðung í neyðartilvikum.
„Hvernig er betra að setja það í lög þegar eftirlitið er ekkert? Það hefur ekkert breyst, og það er það sem er mjög slæmt,“ segir Grímur.