Handbolti

Sig­valdi Björn og Haukur meistarar með Ki­elce

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sigvaldi Björn varð pólskur meistari með liðinu sínu Łomża Vive Kielce í gærkvöld.
Sigvaldi Björn varð pólskur meistari með liðinu sínu Łomża Vive Kielce í gærkvöld. CK-Sport

Łomża Vive Kielce varð pólskur meistari í handbolta í gærkvöld er liðið lagði SPR Stal Mielec með níu marka mun, lokatölur 33-24. Sigvaldi Björn Guðjónsson og Haukur Þrastarson leika með liðinu.

Sigur Kielce kom lítið á óvart en liðið hefur unnið alla 25 leiki sína í deildinni til þessa. Aðeins er ein umferð eftir og þar með ljóst að Orlen Wisla Plock sem situr í öðru sæti getur ekki jafnað Kielce að stigum.

Íslendingaliðið fagnaði þar með sínum 18. meistaratitli í gærkvöld þó bikarinn fari ekki á loft fyrr en á sunnudag þegar Orlen Wisla Plock mætir á heimavöll meistaranna.

Sigvaldi Björn skoraði fimm mörk í liði Kielce í gær en Haukur lék ekki með liðinu þar sem hann er enn að jafna sig á krossbandsslitum sem hann varð fyrir í haust. Íslendingarnir gengu báðir til liðs við félagið síðasta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×