Þetta kemur fram í færslu Natans Kolbeinssonar sem situr í uppstillingarnefnd fyrir Reykjavíkurráð Viðreisnar, en fyrr í dag sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, að Benedikt hafi staðið til boða að taka 2. sæti á lista flokksins. Hann hafi ekki þegið það.
Benedikt vísaði þeim ummælum Þorgerðar á bug stuttu síðar. Hann segist hafa fallist á annað sætið, gegn því að fá afsökunarbeiðni frá þeim sem hefðu komið fram við hann með „óviðurkvæmilegum hætti“ í málinu.
Natan segir það hafa verið erfitt að setja karlkyns oddvita í öðru Reykjavíkurkjördæminu í ljósi þess að karlmenn hefðu fengið sviðið úti á landi. Auk þess hefðu þingkonur Viðreisnar lyft grettistaki á kjörtímabilinu og lyft flokknum upp í rúm ellefu prósent með störfum sínum.
„Ég fyrir mitt litla líf get ekki beðið hann eða nokkurn mann skriflega afsökunar á því að neita að hverfa frá jafnréttissjónarmiðum flokksins eða skilyrða sæti á framboðslista við kröfur eins frambjóðenda,“ skrifar Natan.
Hann segir umræðu um prófkjör hafa hlotið dræmar undirtektir innan ráðsins, en ferlið hafi allt farið eftir „þeim lýðræðislegu leikreglum sem flokkurinn setti sér við stofnun og Benedikt er einn af aðalhöfundum að.“