Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnti í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun stefnu borgarinnar varðandi svokallað grænt húsnæði. Fram hefur komið borgin hyggst leggja til þróunarreiti á Veðurstofureit, við Arnarbakka, Völvufell, Suðurfell, Suðurlandsbraut, Gufunesbrygg og Sævarhöfða 31.
Borgin auglýsti eftir tillögum á síðasta ári fyrir Sævarhöfða 31. Skilyrðin voru að þverfaglegt teymi móti framtíðarsýn fyrir lóðina með það að meginmarkmiði að þar rísi fyrirmyndarbyggingar í sjálfbærni. Verkefnið er hluti af samstarfi borgarinnar við nær hundrað stórborgir gegn loftslagsbreytingum.
Verðlaunatillaga fyrir Sævarhöfða var kynnt í morgun . Rebekka Guðmundsdóttir borgarhönnuður segir marga koma að tillögunni, norsk arkitektastofa, VSÓ ráðgjöf, Eik fasteignafélag, Íslenskar fasteignir, Mstudio Reykjavík og Landbúnaðarháskóli Íslands.

„Nú er að hefjast uppbygging á bryggjuhverfi vestur eða hún er hafin þar. Verðlaunatillagan sem var kynnt í dag gerir ráð fyrir að Sementsverksmiðjan sem er á svæðinu verði að fullu nýtt,“ segir Rebekka.
Rebekka segir að tillagan geri ráð fyrir fullri nýtingu á sementsverksmiðju og sílóum sem eru þarna fyrir.
Það verður ræktun, veitingastaðir, veitingaþjónusta, nýsköpun í sementsverksmiðjunni og svokölluð lóðræn ræktun eða lóðrænn landbúnaður í steypusílóunum, þau munu gegna eins konar hlutverki gróðurhúss.
Rebekka segir að mikill undirbúningur fyrir verkefnið fari fram á næstunni og erfitt að segja til um hvenær það verður endanlega tilbúið.
