Hörður Axel átti sannkallaðan stórleik í tólf stiga sigri Keflavíkur á Tindastól í Síkinu á Sauðárkróki en hann endaði leikinn með 29 stig og 11 stoðsendingar.
Hörður setti með þessu nýtt persónulegt stigamet í úrslitakeppni en hann hafði mest áður skorað 26 stig í einum leik fyrir leikinn í gær. Hann hefur líka aldrei áður skorar fleiri þrista í einum leik í úrslitakeppni.
Hörður var líka nálægt því að jafna stoðsendingametið sitt í úrslitakeppni sem eru tólf stoðsendingar.
Hörður Axel sýndi ekki síst mikilvægi sitt í fjórða leikhluta þegar Stólarnir voru búnir að vinna sig inn í leikinn og komnir yfir. Það leit út eins og fyrirliði Keflavíkur vildi alls ekki að þurfa að keyra aftur á Krókinn á næstunni.
Leikstjórnandinn skoraði 11 stig og gaf 3 stoðsendingar á félaga sína í fjórða leikhlutanum sem Keflavíkurliðið vann 27-15.
Hörður hitti úr 3 af 4 þriggja stiga skotum sínum í lokaleikhlutanum og nýtti líka bæði vítin sín. Tindastólsliðið átti ekkert svar og Keflvíkingar geta því tryggt sér sæti í undanúrslitunum með sigri í næsta leik á heimavelli sínum.
Flest stig hjá Herði Axels Vilhjálmssyni í einum leik í úrslitakeppni:
- 29 stig - Á móti Tindastól í átta liða úrslitum 18. maí 2021
- 26 stig - Á móti KR í undanúrslitum 7. apríl 2017
- 25 stig - Á móti Tindastól í átta liða úrslitum 28. mars 2010
- 23 stig - Á móti Keflavík í átta liða úrslitum 16. mars 2006 (Með Fjölni)
- 22 stig - Á móti Tindastól í átta liða úrslitum 19. mars 2017
Flestar þriggja stiga körfur hjá Herði Axels Vilhjálmssyni í einum leik í úrslitakeppni:
- 7 þristar - Á móti Tindastól í átta liða úrslitum 18. maí 2021
- 7 þristar - Á móti Tindastól í átta liða úrslitum 28. mars 2010
- 7 þristar - Á móti KR í átta liða úrslitunum 22. mars 2019
- 6 þristar - Á móti Keflavík í átta liða úrslitum 16. mars 2006 (Með Fjölni)