Leikurinn var kaflaskiptur og jafn alveg þar til Keflavík sýndi úr hverju þeir eru gerðir og gáfu í á loka mínútunum sem varð til þess að þeir unnu leikinn 74-86. Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, var sáttur með sína menn í leiks lok.
„Það er mjög vel gert að mæta á Sauðárkrók og taka sigur enda mjög erfiður útivöllur. Við byrjuðum leikinn af krafti en mættum síðan flatir inn í seinni hálfleikinn sem er ólíkt okkar liði," sagði Hjalti Þór.
„Menn voru líklegast slegnir niður á jörðina verandi 17 stigum yfir en lenda síðan í jöfnum leik, það var líklegast sjokk fyrir menn en síðan fóru þeir aftur að spila vel síðustu 6-7 mínúturnar og menn komust í Keflavíkur taktinn."
Hjalti Þór var ánægður með síðustu mínúturnar frá sínum mönnum sem að lokum kláruðu leikinn fagmannlega.
„Við fórum að keyra meira á Milka og Deane Williams. Milka gerði fyrstu stigin sín mjög seint í leiknum sem er ólíkt honum en Deane Williams var góður í kvöld."
Hjalti var full meðvitaður um að þetta einvígi er ekki búið og var sannfærður um að Tindastóll myndu mæta trylltir til Keflavíkur í næsta leik.
„Þeir mæta trylltir í næsta leik og munu gera allt í sínu valdi stendur til að vera áfram í úrslitakeppninni því sú keppni er það skemmtilegasta við körfuboltann," sagði Hjalti að lokum.

Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.