Innlent

Gerir ekki kröfu um að Kolbeinn segi af sér eða fari í leyfi

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri Grænna, telur Kolbein Óttarson Proppé hafa tekið rétta ákvörðun með því að draga framboð sitt til baka.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri Grænna, telur Kolbein Óttarson Proppé hafa tekið rétta ákvörðun með því að draga framboð sitt til baka. vísir/samsett

Formaður Vinstri grænna telur að Kolbeinn Óttarsson Proppé hafi tekið rétta ákvörðun með því að draga til baka framboð sitt í prófkjöri flokksins eftir að kvartað var undan hegðun hans til fagráðs flokksins. Hún telur þó ekki ástæðu til þess að hann fari í leyfi eða segi af sér þingmennsku.

Í yfirlýsingu sem Kolbeinn birti á Facebook í gær rekur hann sögu framkomu sinnar gagnvart konum og greinir frá því að kvartað hafi verið undan hegðuninni til fagráðs Vinstri Grænna.

Engu að síður hafi hann ákveðið að gefa kost á sér í forvali flokksins í Reykjavík. Umræðan undanfarið hafi leitt hann til endurskoðunar á því og hefur hann nú dregið framboð sitt til baka. Formaður Vinstri Grænna styður ákvörðunina.

„Ég virði þá ákvörðun og tel að hann hafi tekið rétta ákvörðun,“ segir Katrín.

Í svörum frá framkvæmdastjóra flokksins segir að ekki sé grunur um refsivert athæfi í málinu. Þetta sé jafnframt eina málið sem borist hafi fagráðinu frá því að það tók til starfa árið 2019. Katrín segir kvörtunina hafa borist á vormánuðum.

„Og ég fékk upplýsingar um hana skömmu síðar. En fyrirkomulagið er þannig að fagráðið er bundið trúnaði gagnvart aðilum. Þannig að í raun og veru er fyrirkomulagið þannig að formaður er bara upplýstur um að það sé mál til skoðunar,“ segir Katrín.

Hún hafi ekki gert athugasemdir við framboð Kolbeins þar sem málið væri í réttum farvegi. Hún segir agavirðurlög ekki fylgja meðferð fagráðsins. „Heldur snýst þetta um að fólk fari yfir sín mál og skoði þau og geri breytingar til úrbóta.“

Hún telur ekki tilefni til þess að hann fari í leyfi eða segi af sér þingmennsku.

„Ég geri ekki kröfu um það. Hann hefur tekið ákvörðun um að sækjast ekki eftir þingmennsku aftur og ég lít svo á að hann sé þá að axla ábyrgð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×