Fótbolti

Birkir með naumindum í umspilið þar sem tvö Íslendingalið spila

Sindri Sverrisson skrifar
Birkir Bjarnason sækir að markverði Monza í sigrinum mikilvæga í dag.
Birkir Bjarnason sækir að markverði Monza í sigrinum mikilvæga í dag. Getty/Jonathan Moscrop

Salernitana vann sér í dag sæti í ítölsku A-deildinni í fótbolta með. Íslendingaliðin Venezia og Brescia leika í umspili sex liða um að komast upp.

Lokaumferð ítölsku B-deildarinnar fór fram í dag. Birkir Bjarnason lék með Brescia sem naumlega slapp inn í umspilið með því að vinna 2-0 útisigur gegn Monza sem hafnaði í 3. sæti. Hólmbert Aron Friðjónsson var hins vegar ekki með.

Brescia endaði jafnt Chievo og SPAL að stigum en innbyrðis úrslit úr leikjum liðanna urðu til þess að Brescia og Chievo enduðu í 7. og 8. sæti og komust í umspilið en tímabilinu er lokið hjá SPAL. Brescia mætir Cittadella í fyrstu umferð umspilsins.

Bjarki lék með Venezia sem mætir Chievo

Í umspilinu mætast fyrst liðin í 5. og 8. sæti, og liðin í 6. og 7. sæti. Sigurvegararnir mæta svo liðunum úr 3. og 4. sæti, og sigurvegarar úr þeim einvígum mætast svo í úrslitaleik um að komast upp í A-deildina.

Venezia endaði í 5. sæti og mætir því Chievo í umspilinu. Bjarki Steinn Bjarkason lék með Venezia í 1-1 jafntefli við Cittadella á útivelli í dag en Óttar Magnús Karlsson var ekki með.

Empoli hafði þegar tryggt sér efsta sæti deildarinnar, fyrir lokaumferðina í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×