Miklar deilur hafa skapast um hver eigi að leiða Súlúmenn eftir að Goodwill Zwelithini konungur lést í mars. Hann hafði ríkt yfir ættbálknum, sem um tólf milljónir Suðurafríkumanna tilheyra, frá 1968.
Í erfðaskrá konungs tilnefndi hann eina af sex eiginkonum sínum, Mantfombi drottningu, sem næsta handhafa konungsvaldsins. Málið vandaðist þegar Mantfombi lést sjálf aðeins um mánuði eftir að eiginmaður hennar féll frá.
Þegar erfðaskrá Mantfombi drottningar var lesin upp í gærkvöldi reyndist hún hafa tilnefnt Misuzulu prins, elsta son hennar og Zwelithini konungs, sem næsta konung, að sögn AP-fréttastofunnar. Þessu andmælti annar sonur konungs og stöðvaði tilkynninguna í KwaKhangelamankengne-höllinni. Tvær prinsessur lýstu einnig efasemdum um erfðaskrá Zwelithini konungs veitti drottningunni umboð til að velja arftaka sinn að henni genginni.
Zwelithini konungur er sagður hafa átt 28 börn með eiginkonum sínum. Mantfombi var ekki fyrsta eiginkona hans. Embætti konungs Súlúmanna er að mestu leyti táknrænt en hann hefur þó töluvert áhrif á meðal þessa stærsta þjóðarbrots í Suður-Afríku.