Leiðarahöfundur Morgunblaðsins, sem að venju eru nafnlaus skrif og þar af leiðandi á ábyrgð Davíðs Oddssonar ritstjóra og Haraldar Johannessen rit- og framkvæmdastjóra blaðsins, gerir kórónuveiruna og bólusetningar að umtalsefni í pistli dagsins.
Í niðurlagi hans segir að allra síðustu fréttir frá Bretlandi sýni að mun fleiri látast úr flensu eða lungnabólgu en vegna kórónuveirunnar. Sem sýnir að mati pistlahöfundar, sem ef marka má stílbrögð er Davíð, fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar með meiru, eru grípandi merki um að þar eru slík mál að komast í hefðbundinn farveg.
„Hitt er annað mál, að hér og víðar um allan heim er það talinn sjálfsagður hlutur að til vesturheims berist flensa hvert einasta haust frá Kína sem felli fjölda manns, og þá auðvitað helst þá sem hafa minnstan viðnámsþrótt. Hvað er svona sjálfsagt við það?“ spyr leiðarahöfundur. Og fylgir því eftir með krefjandi spurningu:
„Er ekki kominn tími til að krefjast skýringa á þessum árvissu veirum þótt þær séu ekki krýndar?
Farfuglarnir eru góðir gestir og við tökum þeim fagnandi. En það er ekki sjálfsagður hlutur að flensa fari að hugsa til okkar og annarra í þessum heimshluta um sama leyti og íslensku fuglarnir eru nýfarnir til vetursetu. Getum við ekki orðið sammála um það?“
Þessi áskorun ritstjórans hlýtur að beinast að stjórnvöldum og það væri þá Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra að koma því máli í réttan farveg.