Viðskipti innlent

Ekki fleiri kaup­samningar verið gefnir út frá upp­hafi mælinga

Eiður Þór Árnason skrifar
Mjög mikil virkni hefur verið á fasteignamarkaðnum á þessu ári.
Mjög mikil virkni hefur verið á fasteignamarkaðnum á þessu ári. Vísir/Vilhelm

Í mars voru gefnir út 1.488 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands. Ekki hafa fleiri viðskipti átt sér stað í stökum mánuði frá upphafi mælinga eða frá árinu 2006.

Tölurnar ná eingöngu yfir samninga sem búið er að þinglýsa og er því líklegt að enn fleiri samningar muni bætast við með útgáfudag í mars. Þetta kemur fram á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).

Ef fjöldi samninga er skoðaður út frá landsvæðum þá var mars þriðji stærsti mánuðurinn á höfuðborgarsvæðinu, skammt á eftir september 2020 og júní 2007.

Met var hins vegar slegið á landsbyggðinni en fjöldi viðskipta var ríflega 14% meiri en áður hefur mælst í stökum mánuði. Met var slegið í alls þremur landshlutum af átta eða á Suðurlandi, Suðurnesjum og Norðausturlandi en metið var jafnað á Vesturlandi.

Metfjöldi auglýsinga tekinn úr birtingu

Undanfarna mánuði hafa nokkur met verið slegin um sölu fasteigna miðað við árstíma en nú er um að ræða met óháð árstíma. Það bendir því allt til að það sé enn mikið líf á fasteignamarkaði.

Í síðustu mánaðarskýrslu hagdeildar HMS var því spáð að fjöldi viðskipta yrði nokkuð meiri í mars en undanfarna mánuði. Byggði það mat á skammtímamælikvarða hagdeildarinnar þar sem fjöldi íbúða sem teknar eru úr birtingu á fasteignavef Vísis er mældur.

Samkvæmt mælikvarðanum var metfjöldi íbúða tekinn úr birtingu sem gaf vísbendingu um að fjöldi kaupsamninga yrði einnig mikill. Nokkuð fleiri íbúðir voru þó teknar úr birtingu miðað við fjölda þinglýstra kaupsamninga undanfarna mánuði.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×