Fótbolti

Juventus án lykil­manna gegn Napoli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Juventus verður án bæði Bernardeschi og Bonucci gegn Napoli í dag.
Juventus verður án bæði Bernardeschi og Bonucci gegn Napoli í dag. Daniele Badolato/Getty Images

Ítalíumeistarar Juventus verða án þriggja lykilmanna er Napoli kemur í heimsókn á Allianz-völlinn í dag. Federico Bernardeschi greindist með Covid-19 í gær og missir því af leik dagsins líkt og varnarmennirnir Leonardo Bonucci og Merith Demiral.

Landsleikjahlé síðustu viku hefur komið illa niður á mörgum liðum en fjölmargir leikmenn hafa greinst með kórónuveiruna síðustu daga. Þar má nefna Serge Gnabry hjá Bayern München og Raphaël Varane hjá Real Madrid.

Þá hefur fjöldi leikmanna ítalska landsliðsins greint með veiruna. Alessandro Florenzi og Marco Veratti verða ekki með Paris Saint-Germain á næstunni eftir að hafa komið smitaðir til baka eftir landsleikjahléið. Sama á við um Salvatori Sirigu [Torino], Vincenzo Grifo [Freiburg] og Alessio Cragno [Cagliari].

Miðverðirnir Bonucci og Demiral greindust báðir fyrir helgi og nú hefur hinn 27 ára gamli Bernardeschi bæst við. Það er því ljóst að Juventus verður án þessara þriggja leikmanna er liðið mætir Napoli í ítölsku úrvalsdeildinni í dag.

Liðin eru í 4. og 5. sæti með 56 stig hvort. Takist öðru hvoru liðinu að landa sigri í leik dagsins þá fer það lið upp í 3. sæti og verður aðeins stigi á eftir AC Milan sem er í 2. sæti deildarinnar.

Leikur Juventus og Napoli hefst klukkan 16.45 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3.


Ítalski boltinn, Serie A, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Serie A er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×