Líkt og Vísir greindi frá fyrr í dag leikur grunur á að bíl hafi verið ekið á manninn sem lést. Verjandi mannsins sem nú sætir gæsluvarðhaldi vegna málsins segir í samtali við Rúv að um slys sé að ræða og að skjólstæðingur sinn sé niðurbrotinn vegna málsins. Þá hafi hann „ekki áttað sig á að Íslendingurinn hefði slasast alvarlega,“ líkt og það er orðað í frétt Rúv.
Líkt og fram hefur komið í fréttum lést karlmaður um þrítugt á Landspítalanum á laugardag, þangað sem hann hafði verið fluttur á föstudagsmorgun eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás í Kórahverfinu í Kópavogi. Tilkynning um málið barst lögreglu klukkan 8.51 að morgni föstudagsins langa, en málsatvik voru í fyrstu mjög óljós að því er segir í tilkynningu frá lögreglu frá því fyrr í dag. Alls voru þrír handteknir vegna málsins í gær. Tveimur hefur verið sleppt en sá þriðji hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald líkt og áður segir, á grundvelli rannsóknarhagsmuna til föstudagsins 9. apríl.
Fréttin hefur verið uppfærð.