Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu frá lögreglunni á Austurlandi í dag. Þar segir að líðan skipverjanna þróist í rétta átt en einn hafi verið fluttur talsvert veikur á Landspítala rúmri viku eftir að skipið kom til hafnar. Hann útskrifaðist á sóttvarnarhús í Reykjavík fyrir tveimur dögum síðan og nýtur eftirlits Covid-göngudeildar.
Þeir skipverjar sem eru í einangrun um borð fengu þó páskaglaðning frá starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Austurlands, sem færði hverjum og einum páskaegg í gær. Var það gert að frumkvæði íbúa á Reyðarfirði sem vildu sýna þeim vinarþel og samkennd, en Alcoa Fjarðarál styrkri verkefnið.
Þá er unnið að því að opna sóttvarnahús á Hótel Hallormsstað fyrir komu Norrænu næstkomandi þriðjudag, en gert er ráð fyrir tuttugu og sjö farþegum með ferjunni.
„Að líkindum þurfa sjö þeirra að dvelja í sóttvarnahúsi í fimm daga meðan beðið er niðurstöðu tveggja skimana í samræmi við reglur er tóku gildi 1. apríl síðastliðinn. Aðrir farþegar fara í hefðbundna skimun við komu, þá í fimm daga sóttkví og skimun að nýju,“ segir í stöðuuppfærslu lögreglu.