Handbolti

Bretar stórauka fjárframlög til handbolta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steven Larsson var besti leikmaður breska handboltalandsliðsins á Ólympíuleikunum 2012 og skoraði meðal annars níu mörk gegn Íslandi.
Steven Larsson var besti leikmaður breska handboltalandsliðsins á Ólympíuleikunum 2012 og skoraði meðal annars níu mörk gegn Íslandi. getty/Jeff Gross

Bretland hefur hingað til ekki verið þekkt fyrir afrek sín á handboltavellinum en nú gæti það breyst.

Bretar hafa ákveðið að úthluta 2,4 milljónum punda úr nýjum sjóði, National Squads Support Fund, til átta íþróttagreina sem keppt er á Ólympíuleikum og Ólympíumóti fatlaðra. Meðal þeirra er handbolti.

Talið er þetta hjálpi yfir hundrað íþróttamönnum að keppa á alþjóðlegum mótum sem eykur möguleika þeirra á að komast á Ólympíuleika.

„Þetta er stór stund fyrir íþróttina okkar og gríðarlega mikilvægt að tryggja tilverurétt hennar á afreksstigi. Þetta hjálpar íþróttafólkinu okkar að keppa fyrir hönd Bretlands á hæsta getustigi,“ sagði Paul Bray, formaður breska handknattleikssambandsins.

Auk handbolta fengu blak, sundknattleikur, glíma, mjúkbolti, listsund, sitjandi blak og blindrabolti úthlutað styrk úr sjóðnum.

Bresku handboltaliðin hafa aðeins keppt á einum Ólympíuleikum, á heimavelli 2012. Þar töpuðu þau öllum leikjum sínum stórt.

Ísland vann Bretland, 41-24, í lokaumferð riðlakeppninnar á Ólympíuleikunum í London fyrir níu árum.

Í breska hópnum voru tveir leikmenn Aftureldingar, þeir Mark Hawkins og Christopher McDermott. Hvorugur þeirra gerði miklar rósir hér á landi.

Þá gerði Atli Már Báruson, núverandi leikmaður Hauka, tilraun til að komast í breska hópinn en án árangurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×