Talið er að sprungan þar sem hraun flæðir nú upp í Geldingadal sé allt að 700 metra löng. Ekki er talið að nein hætta stafi af gosinu og það raunar sagt á besta mögulega stað.
Norska ríkisútvarpið ræðir við norska jarðfræðinginn Børge Johannes Wigum, sem búsettur er í Reykjavík. Hann segir eldgosið hafa komið fólki á óvart, þrátt fyrir hina miklu skjálftavirkni dagana á undan.
„Eldfjall sem legið hefur lengi í dvala lifnar við á suðvesturhorni Íslands,“ segir AP-fréttaveitan í fyrirsögn sinni.
CNN slær því upp í fyrirsögn að eldgosið sé í grennd við höfuðborgina Reykjavík en bæði Berlingske í Danmörku og De Telegraaf í Hollandi einblína á flugumferð í sínum fyrirsögnum. „Eldgos stöðvar flugumferð til Reykjavíkur“ segir í fyrirsögn Berlingske.
Þá ræðir Reuters-fréttaveitan við Rannveigu Guðmundsdóttur íbúa í Grindavík. „Ég sé rauðan himininn út um gluggann hjá mér. Allir hérna eru að fara upp í bílana sína til að keyra upp eftir,“ segir Rannveig.
Þá rifjar Reuters upp eldgosið sem varð í Eyjafjallajökli fyrir rúmum áratug.
„Ólíkt því sem gerðist við gosið í Eyjafjallajökli árið 2010, sem stöðvaði um það bil 900 þúsund flug og neyddi hundruð Íslendinga til að flýja heimili sín, er ekki talið að þetta gos spúi mikilli ösku eða reyk upp í loft.“
Þá fjalla breskir fjölmiðlar einnig um gosið, sem prýðir forsíður bæði BBC og Guardian. Sky News segir eldfjallið „Fagradals Mountain volcano“ hafa loksins vaknað til lífsins í kvöld eftir þúsundir lítilla jarðskjálfta undanfarnar vikur.