„Ég sem stend á hverjum einasta degi og upplýsi norsku þjóðina um sóttvarnaráðstafanir og átti að hafa þekkt reglurnar betur. En sannleikurinn er sá að ég hafði ekki skoðað reglurnar nógu vel og hafði því ekki áttað mig á þessu,“ sagði hún í samtali við NRK.
Á þeim tíma máttu ekki fleiri en tíu koma saman í Noregi en þrettán manna fjölskylda forsætisráðherrans snæddi saman á veitingastað þann 25. febrúar til að fagna stórafmælinu. Solberg ætlaði að vera viðstödd kvöldverðinn en þurfti skyndilega að yfirgefa bæinn til að fara til augnlæknis.
Eftir að NRK spurðist fyrir um málið upplýsti Solberg að fjölskyldurnar hafi aftur snætt saman daginn eftir í leiguíbúð og að í þetta sinn hafi hún verið hluti af fjórtán manna hópnum.
„Það er fjórum ofaukið. Við hefðum ekki átt að gera þetta og ég hefði átt að stöðva þetta. Ég gerði það ekki og get einungis beðist afsökunar,“ sagði forsætisráðherrann sem fullyrðir líkt og áður segir að hún hafi ekki gert sér grein fyrir brotinu. Ekki er vitað til þess að neinn hafi smitast af Covid-19 í umræddri ferð.