Fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofunni að skjálftinn hafi fundist nokkuð víða eða allt norður á Akranes og Hvanneyri og austur á Hvolsvöll.
Gera megi ráð fyrir að þessi skjálfti hafi verið vegna spennubreytinga á svæðinu vestan við kvikuganginn sem myndast hefur undir Fagradalsfjalli.
Skjálftinn er sá stærsti sem af er morgni á Reykjanesskaga. Mikil skjálftavirkni hefur enn verið í og við Fagradalsfjall. Um 800 skjálftar höfðu mælst á svæðinu frá því á miðnætti á sjöunda tímanum í morgun, nokkrir þeirra yfir þremur að stærð.