Handbolti

Alls fimm Ís­lendingar sem munu taka þátt í sex­tán liða úr­slitum Meistara­deildar Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aron Pálmarsson er á sínum stað með Barcelona í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.
Aron Pálmarsson er á sínum stað með Barcelona í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Getty/Frank Molter

Riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í handbolta lauk nýverið og nú er búið að draga í 16-liða úrslit keppninnar. Þar verða þrír íslenskir landsliðsmenn í eldlínunni ásamt tveimur fyrrum landsliðsmönnum sem starfa nú sem þjálfarar.

Aron Pálmarsson og liðsfélagar hans í stórlið Barcelona taka á móti norska liðinu Elverum. Verkefnið ætti ekki að reynast Börsungum ofviða en liðið hefur verið óstöðvandi það sem af er leiktíð.

Liðið fagnaði bikarmeistaratitli á dögunum og þá fór það í gegnum riðlakeppni Meistaradeildarinnar með fullt hús stiga sem og það er enn með fullt hús stiga heima fyrir.

Sigvaldi Björn Guðjónsson lék með Elverum áður en hann færði sig um set til Łomża Vive Kielce í Póllandi. Hornamaðurinn knái og samherjar hans mæta franska liðinu Nantes en bæði Íslendinga liðin eiga leik á útivelli þann 31. mars næstkomandi.

Gamla brýnið Alexander Petersson er svo kominn aftur í deild þeirra bestu en hann gekk í raðir þýska stórliðsins Flensburg frá Rhein-Neckar Löwen að loknu HM í Egyptalandi sem fram fór í janúar. Alexander mætir Zagreb frá Króatíu þann 1. apríl, einnig á útivelli.

Roland Valur Eradze starfar í dag hjá Motor Zoporozhye sem kemur frá Úkraínu. Meshkov Brest bíður í 16-liða úrslitum. Þá er Arnór Atlason aðstoðarþjálfari danska liðsins Álaborgar en liðið mætir Porto.

Um er að ræða hefðbundið fyrirkomulag þar sem leikið er heima og að heiman. Fyrri leikirnir fara fram 31. mars og 1. apríl en síðari leikirnir 7. og 8. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×