Kristiansund varð í 5. sæti norsku úrvalsdeildarinnar í fyrra en félagið er frá samnefndum bæ hvers þekktasti sonur í knattspyrnuheiminum er sjálfsagt Ole Gunnar Solskjær.
Samkvæmt tilkynningu á heimasíðu Kristiansund mun Brynjólfur koma til félagsins eftir að hafa leikið í lokakeppni EM U21-landsliða í Ungverjalandi síðar í þessum mánuði, eða frá 24.-31. mars.
Brynjólfur er aðeins tvítugur en á að baki 41 leiki í efstu deild með Breiðabliki, og hefur skorað í þeim sjö mörk. Hann hefur leikið 22 leiki fyrir yngri landslið Íslands.
„Í Brynjólfi höfum við fengið leikmann sem á mikla möguleika á að verða leikmaður sem stuðningsmennirnir dýrka. Hann gefur mjög mikið af sér. Við hlökkum til að sjá hann í dökkbláa búningnum,“ sagði Terje Wiik, yfirmaður íþróttamála hjá Kristiansund.