Handbolti

Skoraði eitt mark þrátt fyrir að spila ekki sekúndu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Einar Sverrisson fagnar eina marki sínu gegn ÍBV.
Einar Sverrisson fagnar eina marki sínu gegn ÍBV. stöð 2 sport

Þrátt fyrir að Einar Sverrisson hafi ekki spilað eina sekúndu í leik Selfoss og ÍBV í Olís-deild karla í gær tókst honum að skora eitt mark. Og það var í glæsilegri kantinum.

Í þann mund sem fyrri hálfleik lauk fengu Selfyssingar aukakast. Halldór Sigfússon, þjálfari liðsins, brá þá á það ráð að setja Einar Sverrisson, sem hafði ekkert komið við sögu fram að því, inn á til að taka aukakastið.

Það reyndist þjóðráð. Eftir að hafa trekkt öxlina í gang lyfti Einar boltanum yfir varnarvegg ÍBV og í fjærhornið. Samherjar Einars fögnuðu honum vel og innilega enda hafði hann jafnað í 13-13.

Mark Einars beint úr aukakastinu má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Mark Einars Sverrissonar beint úr aukakasti

Þetta reyndist eina framlag Einars í leiknum en hann kom ekkert inn á í seinni hálfleik. Þrátt fyrir að spila ekki sekúndu í leiknum tókst Einari að skora eitt mark. Eins og áður segir var leiktíminn búinn þegar Einar tók aukakastið.

Selfoss vann leikinn með tveggja marka mun, 27-25, en sigurinn var kærkominn eftir þrjú töp í röð.

Þegar deildarkeppnin er hálfnuð er Selfoss í 5. sæti með þrettán stig en ÍBV í því áttunda með ellefu stig.

Næsti leikur Selfyssinga er gegn Stjörnumönnum á sunnudaginn. Patrekur Jóhannesson mætir þar liðinu sem hann gerði að Íslandsmeisturum 2019.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×