Á Rhode Island er verið að endurskipuleggja bólusetningar sem frestuðust þegar skammtar bárust ekki á réttum tíma.
Allt er þetta til marks um það mikla átak sem stendur nú yfir til að komu bólusetningum í Bandaríkjunum aftur á áætlun eftir að miklir vetrarstormar leiddu til lokana á heilbrigðisstofnunum, tafa á afhendingu bóluefna og frestun bólusetninga.
Áætlað er að notkun um 6 milljón skammta hafi frestast vegna veðursins en áður en það gekk yfir var þegar komið hikst í bólusetningavélina vegna takmarkaðs framboðs.
Fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins greindi hins vegar frá því í dag að á næstu vikum yrði gefið í. Ríki gætu átt von á 14,5 milljón skömmtum á viku í stað 8,6 milljón skömmtum líkt og í janúar.

Biden lofar öllum bóluefni fyrir júlílok
Fleiri en 44 milljónir Bandaríkjamanna hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefnum Pfizer og Moderna og um 1,4 milljónir fengu annað hvort fyrsta eða annan skammt hvern dag síðustu sjö daga.
Jafnvel þótt smitum og dauðsföllum virðist vera að fækka í Bandaríkjunum segja sérfræðingar ólíklegt að það megi rekja til bólusetninganna. Ástæðan sé frekar sú að jólahátíðin sé yfirstaðin, að fólk sé að halda sig heima vegna veðurs og að fleiri sinni nú grímuskyldu og öðrum sóttvarnaráðstöfunum.
Þá vara þeir við því að þróunin gæti snúist við vegna nýrra afbrigða SARS-CoV-2.
Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur heitið því að allir þeir sem vilja þiggja bólusetningu ættu að hafa fengið hana fyrir áður en júlí er á enda.
Eins og fyrr segir hefur eftirspurnin eftir bóluefnum verið langt umfram framboðið en Pfizer og Moderna gera ráð fyrir að hafa afhent 300 milljón skammta hvort í sumar og þá gerir Johnson & Johnson ráð fyrir að vera búin að afhenda 100 milljón skammta.
Það nægir til að bólusetja bandarísku þjóðina.