Íslenski boltinn

Fimm skiptingar á lið leyfðar í hverjum leik í sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lið í Pepsi Max og Lengjudeildunum mega gera fimm skiptingar í hverjum leik fyrir sig í sumar. Það ætti því að vera auðveldara að taka leikmenn af velli sem eru tæpir á að láta senda sig út af með tvö gul spjöld.
Lið í Pepsi Max og Lengjudeildunum mega gera fimm skiptingar í hverjum leik fyrir sig í sumar. Það ætti því að vera auðveldara að taka leikmenn af velli sem eru tæpir á að láta senda sig út af með tvö gul spjöld. Vísir/Hulda Margrét

Stjórn Knattspyrnusambands Íslands hefur samþykkt tillögu dómaranefndar sambandsins um að lið geti gert fimm skiptingar í leik á Íslandsmótinu í sumar.

Síðasta sumar var skiptingum fjölgað úr þremur í fimm vegna kórónufaraldursins. Það er í efstu tveimur deildunum en fyrir það voru fimm skiptingar leyfðar í 2. til 4. deild. Eftir að kórónuveiran stöðvaði undirbúning liða í Pepsi Max og Lengjudeildunum var ákveðið að fjölga skiptingum í þeim deildum.

Nú hefur verið ákveðið að slíkt hið sama muni eiga við í sumar.

„Þóroddur Hjaltalín, formaður dómaranefndar KSÍ, kynnti tillögu dómaranefndar um að fjölga leikmannaskiptingum tímabilið 2021 á sama hátt og gert var 2020," segir í fundargerð stjórnar Knattspyrnusambandsins.

„Reynslan af fyrirkomulaginu 2020 var góð að mati nefndarinnar. Stjórn KSÍ samþykkti tillögu dómaranefndar um fjölda leikmannaskiptinga 2021 [5 skiptingar]."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×