Handbolti

Bjarki Már kennir fólki að vippa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki Már Elísson vippar yfir samherja sinn hjá Lemgo, Peter Johannesson.
Bjarki Már Elísson vippar yfir samherja sinn hjá Lemgo, Peter Johannesson. facebook-síða þýsku úrvalsdeildarinnar

Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handbolta, veit sannarlega hvað hann syngur þegar kemur að því að skora mörk. Hann miðlar af þekkingu sinni í því að klára færin sín úr horninu í myndbandi sem birtist á Facebook-síðu þýsku úrvalsdeildarinnar.

Í myndbandinu fer Bjarki yfir það hvernig á að fara inn úr horninu og vippa yfir markvörðinn. Landsliðsmaðurinn fer yfir öll atriðin, allt frá því hvernig á að stökkva inn og beita skothöndinni.

Eftir sýnikennsluna frá Bjarka, sem má sjá hér fyrir neðan, ættu handboltaiðkendur, ungir sem aldnir, að vera fróðari um þá list að skora úr horninu með því að vippa yfir markvörðinn.

Bjarki leikur með Lemgo og skrifaði nýverið undir nýjan samning við félagið sem gildir til júníloka 2022.

Bjarki gekk í raðir Lemgo frá Füchse Berlin sumarið 2019. Hann varð markahæstur í þýsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili með 216 mörk í 27 leikjum, eða átta mörk að meðaltali í leik.

Hann er fjórði markahæsti leikmaður þýsku deildarinnar um þessar mundir með 112 mörk. Félagi hans í íslenska landsliðinu, Viggó Kristjánsson, er markahæstur með 130 mörk.

Bjarki hefur á ferli sínum einnig orðið markakóngur efstu deildar á Íslandi og B-deildarinnar í Þýskalandi.

Bjarki skoraði 38 mörk á HM í Egyptalandi og var markahæsti leikmaður Íslands á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×