Enski boltinn

Tveir lykil­menn E­ver­ton klárir í Bítla­borgarslaginn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Calvert-Lewin og Gylfi fagna marki í leik gegn Tottenham í enska bikarnum í síðustu viku.
Calvert-Lewin og Gylfi fagna marki í leik gegn Tottenham í enska bikarnum í síðustu viku. Clive Brunskill/Getty Images

Everton fékk góðar fréttir í dag er það var ljóst að Dominic Calvert-Lewin og Allan verða klárir í Bítlaborgarslaginn gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

Calvert-Lewin og Allan hafa verið á meiðslalistanum að undanförnu. Calvert-Lewin missti af leikjunum gegn Fulham og Man. City en Allan hefur verið frá í lengri tíma.

Allan hefur ekki leikið síðan hann meiddist í leik gegn Leicester þann 16. desember en hann hafði spilað ansi vel frá því að hann kom til félagsins frá Napoli síðasta sumar.

Carlo Ancelotti, stjóri Everton, staðfesti að Allan og Calvert-Lewin verði báðir klárir í slaginn á morgun er Everton heimsækir Liverpool heim á Anfield.

Flautað verður til leiks klukkan 17.30 en bæði lið hafa átt erfitt uppdráttar í ensku úrvalsdeildinni að undanförnu. Eitt sæti skilja liðin að og þrjú stig en Liverpool hefur leikið einum leik meira.

Gylfi Þór Sigurðsson var með fyrirliðabandið í tapinu gegn Man. City á miðvikudag og er hann að sjálfsögðu í leikmannahópi Everton á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×