„Bólusetningunni er rétt að ljúka núna. Þetta hefur gengið ótrúlega vel og þetta nýja efni farið vel í landann,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Vísi.
Hún segir að bóluefni AstraZeneca sé svipað í meðhöndlun og bóluefni Pfizer og Moderna sem þegar er byrjað að bólusetja með hér á landi. Helsti munurinn liggi í tímanum sem líði milli sprauta.
„Það sem er öðruvísi er að næsta sprauta hjá AstraZeneca er eftir þrjá mánuði, besta vörnin kemur þá. Þannig að þessi hópur í dag verður orðinn fullbólusettur rétt fyrir sumarið,“ segir Ragnheiður. Samkvæmt upplýsingum á vef Lyfjastofnunar er Moderna-bóluefnið gefið með 28 daga millibili og Pfizer-efnið minnst 21 dags millibili.

Þeir sem bólusettir voru í dag eru starfsmenn hjúkrunarheimila. Ragnheiður segir að fleiri skammtar frá AstraZeneca séu væntanlegir næstu vikurnar, sem áfram verði notaðir á starfsmenn hjúkrunarheimila og starfsmenn í heimahjúkrun.
Fyrsta sending af bóluefni AstraZeneca kom til landsins 5. febrúar. Ísland hefur samið um kaup á 230.000 skömmtum frá AstraZeneca. Von er á 14.000 skömmtum alls nú í febrúar og alls 74 þúsund skömmtum fyrir mánaðamót mars/apríl. Bóluefnið er gefið fólki yngra en 65 ára.
Þrír mánuðir verða látnir líða á milli fyrri og seinni skammts en þannig nær bóluefnið hámarksvirkni.


