Í þætti dagsins ræddu strákarnir um íslenskt íþróttafólk sem hefur skarað fram úr í fleiri en einni boltagrein. Olga er í þeim hópi en hún var ein besta körfubolta- og fótboltakona landsins á sínum tíma.
„Þegar við tölum um tveggja íþrótta íþróttamenn er einn sem ber höfuð og herðar yfir alla, það er Olga Færseth. Það verður aldrei toppað. Hún er mjög ofarlega á listanum yfir uppáhalds íþróttamennina mína,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson.
Olga vann fjölda titla, bæði í körfubolta og fótbolta, og árið 1994 var hún markahæst í efstu deild í fótbolta og stigahæst í efstu deild í körfubolta. Þá spilaði hún með A-landsliðum í báðum greinum.
Olga var ekki bara góð í fótbolta og körfubolta. Rikki minntist þess í Sportinu í dag þegar hann fór í sjómann við Olgu. Það reyndist ójafn leikur.
„Það eru kannski fjögur ár síðan ég var með fólki og hún kom og settist hjá okkur,“ sagði Rikki um viðureignina við Olgu.
„Ég veit ekki hvernig það æxlaðist en hún skoraði á mig í sjómann. Og hún pakkaði mér saman. Ég átti ekki möguleika.“
Hlusta má á Sportið í dag í spilaranum hér fyrir ofan. Umræðan um sjómann Olgu og Rikka hefst á 34:00.

Sportið í dag er hlaðvarpsþáttur um íþróttir sem er aðgengilegur á hlaðvarpsvef Vísis og í útvarpsappi Bylgjunnar, FM957 og X-ins. Náðu í appið í App Store og Google Play.