Reiknað er með því að fundurinn standi yfir í klukkustund og einhvers konar samningsdrög liggi á borðinu frá lyfjafyrirtækinu að fundi loknum.
Samkvæmt heimildum fréttastofu verða engir ráðamenn á fundinum. Fyrir liggur að Pfizer hefur í einhvern tíma verið með á borði sínu tillögu um fjórða fasa vísindarannsókn á bóluefni Pfizer hér á landi. Þórólfur hefur ekki viljað útskýra sérstaklega í hverju tillögurnar felist nema að þorri Íslendinga yrði bólusettur á skömmum tíma.
Þórólfur sagði á upplýsingafundi í gær að ekkert lægi fyrir um hvort af verkefninu yrði og því síður hversu marga skammta af bóluefni kæmu til landsins eða hvenær.
„Ég get fullvissað alla um að réttar upplýsingar verða gefnar um þetta mál fljótlega eða strax eftir að þær liggja fyrir,“ sagði Þórólfur.
Það vita allir að við höfum komið með ákveðna tillögu til Pfizer, hún er til meðhöndlunar þar og þeir eru að koma með drög að samningi sem er ekki kominn og þá er ekki meira um það að segja í sjálfu sér. En um leið og það verður komið þá þurfum við náttúrulega fyrst að byrja á því að skoða þau samningstilboð sem þar eru og hvort það sé ásættanlegt fyrir okkur og íslenska þjóð og eftir það þá verður þetta bara tilkynnt, já eða nei,“ sagði Þórólfur í gær.
Vísir mun flytja tíðindi af fundinum að honum loknum.