Innlent

Ber sig vel þrátt fyrir að hafa fengið grjót í höfuðið og frost­bit á fingur

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
John Snorri hyggst leggja af stað á toppinn á föstudaginn.
John Snorri hyggst leggja af stað á toppinn á föstudaginn. Facebook

Fjallagarpurinn John Snorri Sigurjónsson og föruneyti hans hyggst leggja af stað á toppinn á K2 að morgni föstudags að staðartíma í Pakistan. Síðasta tilraun til að komast á toppinn tókst ekki en þá þurfti John Snorri að snúa við vegna veðurs sem olli því að teymið tapaði hluta af búnaði sínum.

Samkvæmt færslu á Facebook-síðu hans frá því fyrr í dag er hann nú staddur í 2. búðum og liggur vel á hópnum sem er tilbúinn í ferðina á toppinn. Á morgun munu þeir klífa hinn svokallaða Svarta Pýramída upp í 3. búðir og hvíla sig þar áður en lengra verður haldið.

„Þegar John Snorri var á leiðinni upp í dag féll grjót á höfuð hans en sem betur fer kom hjálmurinn hans honum til bjargar,“ segir í færslunni frá því fyrr í dag. Annar fjallgöngumaður var ekki eins heppinn og fékk grjót í öxlina og hyggst sá meta stöðuna í 2. Búðum.

„Þetta er ein af hættunum í fjöllunum, grjót sem fellur niður á miklum hraða,“ segir ennfremur í færslunni, en nokkrir hafi hætt við að halda áfram á toppinn sökum þessa.

Þá hefur John Snorri einnig fengið vægt frostbit á einn fingur en segist hann hafa það fínt, hann er með lyf sem hjálpi honum að halda því í skefjum. Samferðamenn hans, feðgarnir Ali og Sajid eru einnig vel stemmdir fyrir leiðangurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×