Erlent

For­sætis­ráð­herra Ítalíu segir af sér á morgun en vonast til að mynda nýja stjórn

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, stóð af sér vantraustillögu í síðustu viku.
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, stóð af sér vantraustillögu í síðustu viku. Getty/Massimo Di Vita

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, hyggst segja af sér embætti á morgun. Conte vonast þó til þess að fá umboð frá forseta landsins til að mynda nýja og sterkari ríkisstjórn eftir að hann tapaði meirihluta í öldungadeild þingsins.

Mistakist honum að mynda ríkisstjórn gæti það leitt til þess að boða þurfi til kosninga á Ítalíu. Conte hefur sætt gagnrýni fyrir það hvernig hann hefur tekist á við kórónuveirufaraldurinn sem hefur dregið um 85 þúsund til bana á Ítalíu.

Í yfirlýsingu frá skrifstofu ríkisstjórnar segir að fundur hafi verið boðaður klukkan níu í fyrramálið þar sem Conte mun upplýsa ráðherra í ríkisstjórn sinni um áform sín um að segja af sér. Hann muni síðan eiga fund með Sergio Mattarella forseta.

Conte sem hefur gegnt embætti forsætisráðherra síðan 2018 stóð af sér vantrauststillögu í síðustu viku. Boðað var til atkvæðagreiðslu um tillögu um vantraust eftir að Matteo Renzi, fyrrverandi forsætisráðherra, dró flokk sinn út úr ríkisstjórnarsamstarfinu en hann gat ekki fallist á stefnu Conte um fjárhæð björgunarpakka ESB vegna kórónuveirufaraldursins.

Skömmu áður en fréttir bárust að afsögn Conte kvaðst Fimmstjörnuhreyfingin ætla að halda áfram að standa með Conte en flokkurinn situr einnig í ríkisstjórn hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×