Körfubolti

Tryggvi var aðeins fjórum stigum frá því að ná stigameti Jóns Arnórs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason  var frábær um helgina.
Tryggvi Snær Hlinason  var frábær um helgina. Getty/Oscar J. Barroso

Íslenski landsliðsmiðherjinn Tryggvi Snær Hlinason setti nýtt persónulegt met um helgina og var nálægt þvi að jafna íslenska stigametið í spænsku ACB-deildinni í körfubolta.

Tryggvi Snær hafði mest skorað sextán stig í einum leik í bestu landsdeild Evrópu en hann bætti það met um átta stig með því að skora 24 stig í sigri Casademont Zaragoza á Urbas Fuenlabrada á laugardagskvöldið.

Tryggvi tróð boltanum sex sinnum í körfu mótherjanna og var því 92 prósent skotnýtingu því hann hitti úr 12 af 13 skotum sínum utan af velli auk þess að taka 9 fráköst og verja 3 skot.

Tryggvi var kominn með tólf stig í fyrsta leikhlutanum og tvöfaldaði þá stigatölu sína í seinni hálfleiknum.

Tryggvi var farinn að nálgast stigamet Jóns Arnórs Stefánssonar sem er sá íslensku körfuboltamaður sem hefur skorað mest í einum leik í ACB-deildinni.

Stigamet Jóns Arnórs er orðið rúmlega sjö ára gamalt en hann skoraði þá 28 stig fyrir Zaragoza á móti Rio Monbus Obra. Zaragoza þurfti heldur betur á þessum stigum Jóns Arnórs að halda því liðið vann leikinn bara með fjórum stigum.

Jón Arnór skoraði stigin 28 á aðeins tæpum 23 mínútum en hann hitti meðal annars úr sex af níu þriggja stiga skotum sínum. Leikurinn fór fram 27. október 2013.

Jón Arnór var eini íslenski körfuboltamaðurinn sem hafði náð að skora tuttugu stig í einum leik en hann náði því á fjórum tímabilum í spænsku deildinni.

Haukur Helgi Pálsson hefur skorað mest 18 stig í einum leik í spænsku deildinni og Martin Hermannsson hefur mest skorað 17 stig á einu kvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×