Tólfhundruð skammtar af bóluefni Moderna komu til landsins í gær en alls eru fimm þúsund skammtar af efninu væntanlegir út febrúar.
Sjúkraflutningamenn, slökkviliðsmenn, lögreglumenn og starfsfólk í farsóttarhúsi fékk fyrri bólusetningu á Suðurlandsbraut í dag. Einn fékk ofnæmisviðbrögð en úr því leystist vel.
„Þetta hefur gengið alveg glimrandi vel, hratt og vel,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Og viðstaddir, sem bíða þurfa í sætum sínum í fimmtán mínútur eftir sprautuna, taka undir.

Starfsfólk heilsugæslunnar er í góðri æfingu eftir bólusetningu með bóluefni Pfizer fyrir áramót.
„Það er aðeins öðruvísi meðhöndlunin á efninu sjálfu, þetta efni er bara dregið upp, það þarf ekki að blanda, en annars er þetta mjög svipað,“ segir Ragnheiður.
Nýbólusett framlínufólkið lætur vel af bólusetningunni - og var sammála um mikilvægi hennar.
„Við erum að hitta flugfarþega sem koma til landsins, kíkja í farsíma, vottorð og annað og þar á meðal eru allir þeir smituðu sem koma til landsins,“ segir Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli.
Þannig að þetta er mikilvæg sprauta fyrir ykkur?
„Þetta er mjög mikilvæg sprauta fyrir okkur til þess að geta verið örugg í okkar vinnu.“

Sigurður Fossberg Lárusson varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins tekur undir með Sigurgeiri; mikið öryggi sé fólgið í bólusetningunni.
„Okkur fannst við eiga vera framar á listanum því við erum oft fyrstu aðilar sem koma að þessu veika fólki og í öllum öðrum okkar störfum þurfum við að vera í mikilli nánd við fólk. Þannig að við vorum mjög fegnir að færast framar á listanum til að fá þessa bólusetningu.“