City marði Brighton

Anton Ingi Leifsson skrifar
Foden hefur verið frábær á leiktíðinni.
Foden hefur verið frábær á leiktíðinni. Matt McNulty/Getty

Manchester City er komið upp í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar, fjórum stigum á eftir toppliði Man. United og á leik til góða, en City vann 1-0 sigur á Brighton í kvöld.

Ederson var kominn aftur í markið hjá Man. City eftir að hafa glímt við kórónuveiruna en Pep Guardiola hreyfði aðeins við liðinu. Raheem Sterling og Kyle Walker byrjuðu meðal annars á bekknum.

Það var hinn ungi og efnilegi Phil Foden sem skoraði fyrsta markið á 44. mínútu. Kevin De Bruyne kom boltanum á Foden sem lék sér skemmtilega með boltann og skoraði með góðu skoti.

Síðari hálfleikurinn var svipaður og sá fyrri en Brighton menn reyndu hvað þeir gátu til að jafna. City fékk víti á 93. mínútu en Raheem Sterling brenndi af og lokatölur 1-0.

Liðið er nú í þriðja sætinu með 32 stig eftir sextán leiki. Liverpool er í öðru sætinu með 33 stig eftir sautján leiki og toppliðið Man. United með 36 stig eftir sautján leiki.

Brighton er í sautjánda sætinu, þremur stigum frá fallsæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira