Innlent

BHM kærir niðurstöðu Vinnumálastofnunar um meinta hópuppsögn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
BHM hefur kært niðurstöðu Vinnumálstofnunar til félagsmálaráðuneytisins.
BHM hefur kært niðurstöðu Vinnumálstofnunar til félagsmálaráðuneytisins. Vísir/Hanna

BHM hefur kært ákvörðun Vinnumálastofnunar, um að uppsögn fjórtán starfsmanna Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) hafi ekki verið hópuppsögn, til félagsmálaráðuneytisins. 

Fjórtán starfsmönnum SÍ var sagt upp haustið 2020 í kjölfar skipulagsbreytinga hjá stofnuninni. Í tilkynningu sem SÍ sendi út þann 25. september síðastliðinn sagði að meðal þeirra breytinga sem ráðist yrði í væri fækkun stjórnenda hjá stofnuninni. Þá kom fram að ekki væri gert ráð fyrir að neinum yrði sagt upp en síðar var þrettán stjórnendum sagt upp hjá SÍ. Þetta kemur fram á vef BHM.

Vísir greindi frá því í október að í tengslum við skipulagsbreytingarnar hafi 22 stjórnendum verið sagt upp en sumum þeirra hafi verið boðnar nýjar stjórnunarstöður innan stofnunarinnar. Öðrum voru boðin lægra launuð störf sem sérfræðingar.

Margir þeirra sem sagt var upp eru félagsmenn aðildarfélaga BHM en bandalagið vísaði uppsögnunum, sem það telur vera hópuppsögn, til Vinnumálastofnunar. Vinnuveitendum ber skylda til þess að tilkynna hópuppsögn til Vinnumálastofnunar og taldi BHM að SÍ hafi ekki uppfyllt það skilyrði.

Vinnumálastofnun komst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið um hópuppsögn að ræða. Því hafi SÍ ekki verið skylt að tilkynna uppsagnirnar til Vinnumálastofnunar né heldur að uppfylla ýmis önnur skilyrði sem lög um hópuppsagnir segja til um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×